Bókaárið 2023: Kokkállinn og sá sem komst af

Gamlir meistarar í bland við nýja og nýlega

Skuli Sigurdsson
6 min readFeb 2, 2024

Sálfræði, háfantasía, morð á frumbyggjum Norður-Ameríku, Raspútín, Churchill, finnsk leyniskytta, rokkævisögur og hinar og þessar skáldsögur. Það kenndi ýmissa grasa á bókasléttunni á liðnu ári.

Ríflega helming bókanna mætti þó flokka sem glæpa- eða spennusögur, það sem kalla má reyfara: Arnaldur og Lilja Sig, Nesbø og Rankin, Chandler, King og fleiri. Langfyrirferðamestur var stórmeistarinn Micheal Connelly, meira um það hér á eftir.

Í árslok var alveg ljóst hvaða þrjár bækur stóðu upp úr og eftir nokkra umhugsun tókst að fullskipa topp fimm-listann.

Top fimm 2023:

1. Kokkáll eftir Dóra DNA
2. Survivor eftir Chuck Palahniuk
3. Angels Flight eftir Michael Connelly
4. Líkaminn geymir allt eftir Bessel van der Kolk
5. Killers of the Flower Moon eftir David Grann

Topp fimm 2023 [fair use]

Vert er að geta einnig tveggja bóka sem næstum náðu inn á listann. Annars vegar Thrilling Cities (1963) þar sem Ian Fleming, skapari James Bond, segir sögur af ferðalögum sínum um heiminn af sinni einstöku list og alensku hæðni. Sannarlega barn síns tíma en skemmtileg og fróðleg lesning. Hins vegar Breath (2020) eftir James Nestor sem fjallar um hvernig við öndum og eigum ekki að anda, hvernig við öndum ekki og eigum að anda og hvaða orsakir, áhrif og þýðingu það hefur.

Draugar fortíðar

Killers of the Flower Moon: The Osage Murders and the Birth of the FBI (2017) eftir David Grann er efniviður samnefndrar kvikmyndar Martin Scorsese sem kom út í fyrra. Fjallar hún um dularfull morð á meðlimum Osage-ættbálksins í Oklahoma á þriðja áratug liðinnar aldar.

Ráðabrugg og bíræfni þeirra sem stóðu að morðunum eru lyginni líkust en það er andvaraleysi og bein hlutdeild borgara, embættismanna og yfirvalda sem reka lesandann í rogastans. Dregin er upp ógeðfelld en skýr mynd af viðhorfum til frumbyggjanna og því hve lágt menn geta lagst til að auðgast. Ekki beinlínis skemmtilesning en hugga má sig við að þrátt fyrir allt hefur margt breyst til batnaðar á þeim hundrað árum sem síðan eru liðin.

“History is a merciless judge.” [fair use]

David Grann skrifaði einnig hina stórgóðu The Lost City of Z (2009), um mögulega tilvist týndrar borgar í Amazon-regnskóginum og leit að henni.

Segja má að Líkaminn geymir allt: hugur, heili, líkami og batinn eftir áföll (2014) eftir hollenska geðlækninn Bessel van der Kolk fjalli eins og Killers of the Flower Moon um drauga fortíðar. Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir og Arnþór Jónsson þýddu á íslensku.

Svo sem titillinn gefur til kynna er umfjöllunarefnið áföll, hvaða áhrif þau hefur á fólk og hvernig má ráða fram úr þeim. Þótt bókin sé stundum kölluð sjálfshjálparbók virðist það í besta falli ónákvæmni, mögulega til að selja fleiri eintök, og virðist eðlilegra að flokka hana sem popular science eða aðgengileg vísindi. Þung á köflum en alltaf áhugaverð.

Michael Connelly-fylleríið heldur áfram

Eins og áður segir tók Michael Connelly mikið pláss árið 2023, eins og reyndar árið áður, en heilar þrettán bækur hans lágu í valnum í árslok. Þar skaraði Angels Flight (1999) fram úr þótt fleiri bækur stæðu fyrir sínu.

Sagan fjallar um morð á nafntoguðum svörtum lögmanni sem sótt hefur fjölda mála gegn lögreglunni í Los Angeles. Rannsóknarlögreglumanninum Harry Bosch er falið að rannsaka málið sem fljótt fer að snúast um samband blökkumanna og lögreglunnar í borginni og erfiða sögu kynþátta þar. Svo mjög að allt er á suðupunkti og stefnir í óeirðir, á borð við þær sem urðu vegna Rodney King-málsins á sínum tíma.

Spennan er stöðug og fléttan er skemmtileg, án efa með betri bókum Connelly og í sama klassa og The Concrete Blonde (1994) og The Lincoln Lawyer (2005).

“Civil unrest occurs when the feelings of overwhelming powerlessness hit critical mass.” [fair use]

Vert er að geta þess að sjónvarpsseríurnar tvær eftir sögunum um Harry Bosch, Bosch (2014-21) og Bosch: Legacy (2022-), eru hreint frábærar. Fjórða þáttaröðin af þeirri fyrrnefndu er byggð á Angels Flight, auk annarra bóka í flokknum.

Myrkar en hjartnæmar sögur

Tvær efstu bækurnar á listanum eiga það sameiginlegt að skoða skuggahliðar mannskepnunnar en líka það góða í henni.

Í Survivor (1999) eftir Chuck Palahniuk segir Tender Branson, síðasti eftirlifandi meðlimur sértrúarsöfnuðar, frá lífshlaupi sínu í diktafón áður en flugvélin sem hann er í hrapar í óbyggðir Ástralíu. Bókin er kostuleg satíra sem skýtur föstum skotum á trúarbrögð, bandarískt samfélag, stéttaskiptingu, frægð og frama.

Að miklu leyti er sagan myrk og dapurleg en húmorinn og hæðnin lýsa atburðarásina upp, sem og hið fallega en bilaða samband Tender og Fertility Hollis. Þau kynnast þegar hann svarar símtali símtali hennar í hjálparsíma fyrr fólk í sjálfsvígshugleiðingum — látum það nægja.

Palahniuk er aðallega þekktur fyrir Fight Club (1996) og kvikmyndina sem gerð var eftir henni en Survivor er með hans skemmtilegri verkum, þótt ekki nái hún sömu hæðum og Choke (2001) og Lullaby (2002).

“The only difference between a suicide and a martyrdom really is the amount of press coverage.” [fair use]

Efst á lista er Kokkáll (2019) eftir Dóra DNA. Þetta er stórskemmtileg og svakaleg tragekómedía úr íslenskum samtíma, skerandi hæðin og miskunnarlaus. Aðalpersónan er maður að nafni Örn sem kemst í tilvistarkreppu eftir að kærasta hans sefur hjá öðrum manni, með hans blessun, í ferðalagi til Chicago. Í fyrstu virðist sagan aðeins vera skemmtiefni en höfundurinn fléttar áreynslulaust saman við hana hugleiðingar um lífið og tilveruna, vinasambönd og ástina, svo úr verður áhrifarík og ákaflega mannleg saga.

Alltaf er stutt í hæðnina en Dóri á ekki í neinum vandræðum með að stilla því hjartnæma upp við hliðina á henni án þess að annað skyggi á hitt. Það er einkum þetta sem er líkt með Kokkáll og Survivor en myrkrið er hér ekki eins dimmt og ljósið bjartara. Snerting höfundarins er nærgætnari þótt hann viti hvenær skal herða takið á lesandanum.

“Helvíti er öðruvísi í Evrópu, það er úr gegnheilum steini, alvöru viðarborðum og eldurinn logar.” [fair use]

Persónusköpunin í bókinni er skemmtileg en Dóri virðist stilla upp erkitýpum úr íslenskum raunveruleika. Örn er góði strákurinn og það ómögulegt annað en að halda með honum — alltaf stundum. Hrafnhildur, kærasta Arnar, er gellan sem vön er að fá allt upp í hendurnar. Hallur er prinsipphundurinn sem er blindur á eigin hræsni. Þetta er allt fólk sem var með lesandanum í bekk, þau eru hvert og eitt skilgetið afkvæmi íslensks samfélags. Auðvelt er að setja sig í spor þeirra og finna til með þeim. Og, eftir atvikum, snúast gegn þeim.

Höfundur les hljóðbókina sjálfur og gerir það vel, innilega en af hispursleysi og greinilegt að hann treystir textanum til að vinna erfiðisvinnuna. Brugðið getur til beggja vona þegar höfundar lesa eigin verk en hér er tilfinningin sú að maður heyri söguna eins og hún á að vera.

2024 hingað til: Rokk, kaffi, morðtilræði og mafían [fair use]

Nýtt ár fer geyst af stað, tólf bækur lesnar nú þegar. Reyndar eru þar á meðal fimm styttri bækur og tvær sem voru langt komnar þegar árið gekk í garð. 2024 verður þess vegna ekki endilega metár.

Hingað til ber hvað hæst bókina Killing Thatcher: The IRA, the Manhunt and the Long War on the Crown (2023) eftir Rory Carroll sem fjallar um morðtilræði við Margaret Thatcher árið 1984. Engu munaði að Járnfrúin biði bana og það hefði getað haft sögulegar afleiðingar, ekki aðeins fyrir Bretland og Írland heldur líka fyrir veröldina alla að mati höfundarins.

Þá er tæplega hálfnuð bók Christopher Clark, The Sleepwalkers: How Europe Went to War in 1914 (2012), þar sem hann varpar ljósi á aðdraganda og orsakir fyrri heimstyrjaldar. Byssuskotinu sem heyrðist um allan heim var ekki hleypt af í tómarúmi.

Líklegt er að bæði verk verði til umfjöllunar að ári.

--

--

Skuli Sigurdsson

Notes and musings from a misspent life. Travel. Music. Books. Films. And other good things too.