Bókaárið 2022 — ár Churchill og Connelly

Frá vígvöllum seinna Búastríðs til reykfullra bakherbergja í Lundúnum, frá strætum Los Angeles til skuggalegrar Reykjavíkur

Skuli Sigurdsson
5 min readJan 4, 2023

Eins og undanfarin ár setti ég mér það markmið að lesa 52 bækur árið 2022, eina bók á viku. „Lesa mikið, skrifa mikið,“ segir Stephen King. Þegar upp var staðið urðu þetta 69 bækur og kom það aðallega til af því að eftir nokkurt hlé ég tók upp þráðinn í reyfurum — óneitanlega auðlesnara efni en margt annað.

Í reyfurunum var Michael Connelly fyrirferðarmestur, alls sjö bækur og sú áttunda á náttborðinu í árslok. Arnaldur, Ragnar, Yrsa, Stephen King, Elmore Leonard, Alistair MacLean, John Grisham og Michael Crichton komu öll við sögu.

Bækur um Winston Churchill tóku líka sitt pláss, einnig sjö bækur og áttunda langt komin.

Topp fimm 2022:
1. Kverkatak
2. Churchill Defiant: Fighting On: 1945–1955
3. The Last Lion: Winston Spencer Churchill: Visions of Glory, 1874–1932
4. The Concrete Blonde
5. The Lincoln Lawyer

Topp fimm 2022 [fair use]

Ljóskan í steypunni og Lincoln-lögmaðurinn

Michael Connelly er að mínu mati einn besti reyfarahöfundur síðari áratuga. Bækur hans hafa selst í yfir 80 milljónum eintaka.

Í bæði The Concrete Blonde (1994) og The Lincoln Lawyer (2005) býður hann upp á sögu þar sem ekki er allt sem sýnist. Stíllinn er blátt áfram og ber vitni störfum Connelly við blaðamennsku. Raymond Chandler svífur yfir vötnum, að hluta af því að sögurnar gerast í Los Angeles en líka vegna þess hve flinkur höfundurinn er með orðin sín.

“The black heart does not beat alone.” [fair use]

Aðalpersónur bókanna, Harry Bosch og Mickey Haller, eru tilbrigði við þekktar erkitýpur en eru svo vel útfærðir að þeir spretta ljóslifandi upp af síðunum. Sérstaklega er gaman að lesa um hve uppgefinn lögmaðurinn Haller er á réttarkerfinu og hvernig hann athafnar sig á gráu svæðum þess.

Fyrst og fremst eru það spennandi saga og grípandi framvinda sem lyfta bókunum langt yfir allt miðjumoð. Einkum er The Concrete Blonde vel heppnuð að þessu leyti en þar fléttar höfundurinn listavel saman mál raðmorðingja, persónulega fortíð Bosch, réttarhöld um hvort hann hafi verið í rétti þegar hann skaut grunaðan mann og hugleiðingar um bandaríkst réttarkerfi.

“I was a greasy angel. I was the true road saint.” [fair use]

Brynhildur Björnsdóttir hefur þýtt nokkrar bækur Connelly á íslensku en hvorki The Concrete Blonde The Lincoln Lawyer eru þar á meðal. Sjónvarpsþáttaraðir hafa verið gerðar eftir sögunum um bæði Bosch og Haller, auk þess sem kvikmynd byggð á The Lincoln Lawyer var gerð árið 2011. Þá er myndin Blood Work, með Clint Eastwood í aðalhlutverki, byggð á samnefndri bók eftir Connelly.

Winston Churchill: Síðasta ljónið

Winston Spencer Churchill er einn áhugaverðasti maður mannkynssögunnar og lífshlaup hans er lyginni líkast.

“I like to live in the past. I don’t think people are going to get much fun in the future.” [fair use]

The Last Lion: Winston Spencer Churchill: Visions of Glory, 1874–1932 (1984) er hið fyrsta í þriggja binda ævisögu William Manchester um Churchill sem alls telur um þrjú þúsund síður. Fyrstu 58 árum ævi Churchill eru gerð skil af mikilli nákvæmni en hvort sem um ræðir erfitt samband Churchill við foreldra sína, brokkgenga skólagöngu hans, ævintýri sem stríðsfréttaritara, þingmennsku hans og ráðherraferils, eða herþjónustu í fyrri heimstyrjöldinni er hvergi dauður punktur.

Því miður tókst Manchester ekki eins vel upp með seinni bindin tvö. Annað bindið, Alone, 1932–40 (1989), fellur í gryfju endurtekninga og of ýtarlegrar umfjöllunar um þingstörf Churchill í pólitískri útlegð hans. Þriðja bindið (2012) er að stórum hluta upptalning á atburðum seinna stríðs, eins og oft vill verða í ævisögum leiðtoga í styrjöldinni. Þá er látin nægja skemmri skírn á ævi Churchill eftir stríð.

Og þar kemur Churchill Defiant: Fighting On: 1945–1955 (2010) til sögunnar.

“[…] a rumor has been put about that I died this morning. This is quite untrue.” [fair use]

Í henni gerir Barbara Leaming ferli Churchill, sem leiðtoga stjórnarandstöðunnar og svo forsætisráðherra, frá stríðslokum og þar til hann settist í helgan stein. Ekkert er dregið undan varðandi hallarpólitíkina og innri átök fylkinga breska íhaldsflokksins. Skilmerkilega er greint frá hrörnun Churchill á þessum árum sem að mestu var skautað fram hjá í þriðja bindi Manchester. Dregin er upp gagnrýnin mynd af öldruðum Churchill sem þó virðist raunsönn og heiðarleg og dregur þrátt fyrir allt fram hvers konar afburðamaður hann var alla tíð.

Kverkatak Kára Valtýssonar

Kverkatak, þvílík rússíbanareið. Í Hefnd (2018) og Heift (2019) hélt Kári Valtýsson á söguslóðir Villta vestursins og fléttaði saman raunverulega atburði og skáldskap. Blóðsúthellingar og harmur, eymd og dauði. Þetta voru vel heppnaðir rökkurvestrar.

“Á ekkert gott skilið. Hundur mannkyns.”

Reykjavík nútímans er sögusvið Kverkataks sem kom út árið 2022. Engir kúrekar, engir indjánar, engar sexhleypur og engir byssubardagar. Þetta er allt annars konar saga. Aðalpersónan er hversdagslegur lögfræðingur sem smátt og smátt missir tökin á lífi sínu vegna atburða sem hann ræður ekki við. Fléttan er stórskemmtileg og sagan í senn meinhæðin og spennandi — rétt er að segja ekki meira þar um, betra að glugga í bókina.

Hefnd og Heift eru reyfarar en Kverkatak flokkast líklega frekar sem hefðbundin skáldsaga, þótt hún beri ýmis einkenni spennusagna. Kára fer þessi sagnategund afar vel úr hendi og bókin minnir um margt á verk Charles Bukowski, Bret Easton Ellis og Chuck Palahniuk. Sagan er sögð í fyrstu persónu og stíllinn er hrár og blátt áfram. Þetta skapar spennu og hraða sem drífur söguna áfram og hrífur lesandann spriklandi með.

Kári hefur vaxið mjög sem höfundur milli bóka, penninn er beittari og liprari en í fyrri bókunum. Hann er þrælfyndinn eina stundina, harmrænn og hádramatískur þá næstu og gengur svo fram af lesandanum með sóðaskapnum. Oft er erfitt að leggja bókina frá sér en stundum leikur Kári sér þannig að lesandanum að mann langar að grýta henni burt í bræði.

Frábær lesning.

Í upphafi 2023 eru tvær bækur aðallega í umferð, Warlord: A Life of Winston Churchill at War, 1874–1945 (2008) eftir Carlo D’Este og Blood Work (1998) eftir Michael Connelly. Inn á milli er gluggað í smásagnasafnið The Adventures of Sherlock Holmes (1892) og The Real Odessa: How Peron Brought the Nazi War Criminals to Argentina (2003) eftir Uki Goñi.

Aftur er markið sett á 52 bækur. Engin ástæða til að ofmetnast.

2023: Meiri Churchill, meiri Connelly [fair use]

--

--

Skuli Sigurdsson

Notes and musings from a misspent life. Travel. Music. Books. Films. And other good things too.